Okkar Sögur

Íslensk baðmenning

Höfundur

Teymið í Kerlingarfjöllum

Dags.

Aug 22, 2025

Lestími

6 mín lestur

Í Hálendisböðunum, sem staðsett eru í Kerlingarfjöllum á miðhálendi Íslands, er ljúft að slaka á með einstakt útsýni til fjalla. Þar láta öll náttúruöflin til sín taka, enda svæðið á mótum elds og íss og landslagið mótað af eldsumbrotum, jarðhita og ísalögum.

Í Hálendisböðunum mætast íslensk baðmenning og nútímahugmyndir um heilsu og vellíðan og mynda saman kjöraðstæður til að láta líða úr sér eftir göngu eða skíðatúr, eða bara slaka á í heitu vatni og fersku fjallalofti.

Íslensk baðmenning

Ísland er staðsett á flekaskilum Norður-Ameríku- og Evrasíuflekanna og liggur landið því yfir svokölluðum heitum reit þar sem aðgengi að náttúrulega heitu vatni er víða greitt.

Baðmenning á Íslandi nær þess vegna allt aftur til landnáms, og kemur fram í fornum bókmenntum að landnámsmenn hafi synt og baðað sig í heitum laugum til heilsueflingar, en ekki síður af félagslegum ástæðum. Laugar þessa tíma voru staðsettar við náttúrulegar uppsprettur og án nokkurs konar manngerðs aðbúnaðar.

Á 19. öld var aukinn áhugi á hetjum landnámsaldar í íslensku þjóðfélagi, ekki síst með tilliti til hreysti þeirra og íþróttamennsku, og í kjölfar stofnunar ungmennafélaga víða um land voru reistar sundlaugar til sundkennslu. Íslendingar eru útvegsþjóð og var ekki síður öryggisatriði að þorri þjóðarinnar kynni að synda. Samhliða þróun hitaveitu og innviða á 20. öld urðu almenningssundlaugar, sem reistar voru í flestum byggðarlögum, órjúfanlegur hluti daglegs lífs, staðir þar sem fólk kom saman til íþróttaiðkunar, slökunar og samveru.

Á Íslandi hefur tvenns konar menning því þróast samhliða hvor annarri, annars vegar sundmenning, þar sem áhersla er á hreyfingu og öryggi, og hins vegar baðmenning, sem snýst frekar um samveru, vellíðan og slökun.

Nútímabað- og sundmenning Íslendinga sameinar fornar hefðir og nýrri hugmyndafræði um heilsu og vellíðan. Laugar, böð og lón hafa sprottið upp um allt land og laðað að heimafólk og ferðamenn frá öllum heimshornum. Í baðlónum nútímans er áhersla á jarðhita og náttúru og hefur arkitektúr og upplifunarhönnun orðið lykilatriði í aðgreiningu þeirra hvert frá öðru. Þessi baðlón hafa orðið að helsta aðdráttarafli íslands gagnvart ferðamönnum og meginauðkenni íslenskrar menningar.

Böð í Kerlingarfjöllum

Kerlingarfjöll eru á miðju hálendinu, fjarri hitaveitulögnum og innviðum þéttbýlisins, en þökk sé jarðvarmabeltinu sem liggur í gegnum Ísland er þar að finna heitt vatn. Hveradalir, sem tilheyra Kerlingarfjöllum, eru eitt virkasta jarðhitasvæði Íslands, og þó hveraaugu og laugar þar séu of heit til baða, er nálægðin við þetta jarðhitasvæði grunnþáttur í því að hægt sé að nálgast heitt vatn í Kerlingarfjöllum.

Það var á sjöunda áratug síðustu aldar sem skíðafólk í skíðaskólanum í Kerlingarfjöllum tók að baða sig í svokölluðu borholubaði í Ásgarðsgljúfri. Það eru engin nýmæli að útivistarfólk sæki í heit böð eftir langan dag af útivist, bæði til að hvíla lúin bein og til að ræða við samferðafólk um áskoranir dagsins. Í Kerlingarfjöllum, þar sem umhverfið er sérstaklega öfgafullt og krefjandi, er það ómissandi hluti af útivistarupplifuninni að láta líða úr sér í heitri laug að ævintýri loknu.

Nú á dögum eru Hálendisböðin helsti baðstaðurinn í Kerlingarfjöllum, þó enn megi baða sig í gamla borholubaðinu í Ásgarðsgljúfri. Í Hálendisböðunum er meðal annars heit setlaug, kaldur pottur, glæsileg sauna og bar þar sem hægt er að panta svalandi drykki til að njóta ofan í. Umgjörðin er hlýleg og náttúruleg enda er aðstaðan hönnuð í fullkomnum samhljómi við umhverfið.

Vatnið

Vatnið í Hálendisböðunum er svokallað ölkelduvatn. Það á upptök sín neðanjarðar, við nærliggjandi háhitasvæði, og er dælt til yfirborðs í Ásgarði. Engum efnum á borð við klór er bætt í vatnið. Það er aftur á móti ríkt af náttúrulegu efnunum karbónat og járn sem gefur því stundum rauðleitan blæ. Þau efni sem fyrirfinnast náttúrulega í vatninu geta linað óþægindi vegna exems og annarra húðkvilla. Þá er sýrustig vatnsins lágt og sambærilegt ferskvatni. Það þykir afar gott fyrir húðina og veldur síður ertingu eða þurrki en vatn sem hefur hærra sýrustig.

Víxlböð og baðmenning nútímans

Undanfarin ár hafa vinsældir svokallaðra víxlbaða aukist, en víxlböð kallast það að baða sig í heitu og köldu vatni til skiptis. Víxlböð byggja á aldagömlum hefðum norrænna manna sem hafa löngum stundað sánu eða heit böð á víxl við kælingu í snjó eða köldu vatni og hafa slík böð verið talin auka blóðflæði, styrkja ónæmiskerfið og stuðla að hugarró.

Þetta frumstæða samspil hita og kulda vekur skynfærin og virkjar tengingu margra við náttúruna og umhverfið. Á hálendinu, þar sem ferskt fjallaloftið leikur um og landslagið er skarpt og hrátt er kjörið að stunda náttúruböð—í faðmi fjallgarða og jökla.

Gisting í Kerlingarfjöllum

Hálendisböðin eru staðsett í miðjum Ásgarði, á bökkum Ásgarðsár, með ótrúlegt útsýni yfir fjallgarðinn sem umlykur dalinn. Þau eru hluti af starfsemi Kerlingarfjalla, þar sem finna má gistingu við allra hæfi, allt frá einfaldri tjaldgistingu og svefnskálum yfir í notaleg hótelherbergi og einkaskála hannaða með hámarksþægindi í huga. Þar er einnig veitingastaður þar sem njóta má ljúffengra veitinga sem veita orku fyrir ævintýri á fjöllum. Saman myndar þetta litla fjallaþorp griðastað fyrir alla ævintýragjarna ferðalanga, hvort sem þá langar í fallega fjallgöngu, krefjandi skíðatúr eða bara að slaka á og njóta náttúrunnar.